Fréttir
Fulltrúar þeirra sem mættir voru í gær til að rita undir viljayfirlýsinguna. Ljósm. mm

Stofnuðu Þörungakjarna á Breið

Síðdegis í gær var skrifað undir viljayfirlýsingu um stofnun Þörungakjarna í húsnæði Breiðar þróunarfélags á Akranesi. „Markmið verkefnisins er að byggja upp Þörungakjarna, miðlægan vettvang fyrir þörungarannsóknir, þróun og nýsköpun, þar sem vísindamenn, fyrirtæki og frumkvöðlar vinna saman að því að efla þekkingu og verðmætasköpun á sviði þörunga,“ segir í kynningu um verkefnið. Til undirbúnings hlaut verkefnið 1,8 milljónar króna styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands við síðustu úthlutun úr sjóðnum. Þörungakjarninn á að stuðla að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda og á að styrkja innviði fyrir þörungarannsóknir með áherslu á matvælaþróun, líftækni og kolefnisbindingu. Þörungakjarninn mun jafnframt stuðla að fræðslu og menntun í samstarfi við háskóla og rannsóknastofnanir og skapa vettvang fyrir þverfaglega samvinnu milli vísinda og atvinnulífs.