
Þeir félagar Jóhann Páll og Viktor benda á Hamborgartréð.
Leitin að Hamborgartrénu bar árangur í Skorradal
Það rekur margt verkefnið á fjörur starfsmanna Faxaflóahafna. Flest eru þau, eins og nærri má geta, bundin við sjávarsíðuna. Eitt af allra vandasömustu verkefnunum og um leið það sem mest eftirvænting er tengd við er að sjálfsögðu leitin að Hamborgartrénu. Sem kunnugt er hefur Hamborgartréð lýst upp aðventuna við Miðbakka Reykjavíkurhafnar frá árinu 1965 og að sama skapi glatt hjörtu og glætt jólabarnið í hugum allra þeirra er um hafnarsvæði höfuðborgarinnar fara á aðventunni.