Fréttir
Ráðherrarnir funduðu í Brussel í dag. Ljósm. Stjórnarráðið.

Fjármálaráðherra sagði hótun um verndartolla grafa undan samstarfinu

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, sat í dag í Brussel fund fjarmála- og efnahagsráðherra ESB ásamt ráðherrum frá öðrum EFTA ríkjum. Árlega býður ESB EFTA ríkjunum á svokallaðan Ecofin fund, en þar gefst þeim tækifæri á að taka upp mál sem eru ofarlega á baugi. Í skýrslu EFTA ríkjanna, sem lögð var fyrir fundinn, var hvatt til áframhaldandi frjálsra viðskipta milli ESB og EFTA ríkjanna, einkum í ljósi þeirra umbreytinga sem orðið hafa í alþjóðakerfinu síðastliðin misseri. Sérstök áhersla var lögð á að varðveita aðgengi ríkjanna að innri markaðnum og hag allra ríkjanna af því að efla samkeppnishæfni Evrópu. Sem formaður EFTA sendinefndarinnar í ár gerði Daði Már grein fyrir meginefni skýrslunnar í máli sínu.