Fréttir

Sveitarstjórn ályktar um verndartolla á kísilmálm

„Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með að Ísland og Noregur fái ekki undanþágu frá fyrirhuguðum verndaraðgerðum Evrópusambandsins gagnvart kísilmálmi samkvæmt tillögu sem framkvæmdastjórn ESB tilkynnti í gær. Ákvörðunin er í ósamræmi við EES-samninginn,“ segir í ályktun sveitarstjórnar frá því fyrr í dag. „Líkt og kom fram í fyrri yfirlýsingu sveitarstjórnar vegna málsins þá verður það mjög alvarlegt högg fyrir iðnaðarsvæðið á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit þar sem nú er unnið að gerð græns hringrásariðngarðs með framsæknum nýsköpunarverkefnum í betri nýtingu orku- og efnisstrauma innan svæðisins. Að auki yrði sett í uppnám öll sú mikilvæga uppbygging og fjárfesting nýrra fyrirtækja sem unnið hefur verið að í langan tíma á svæðinu.“