Fréttir

Ráðuneytið leggst gegn fjárveitingu til Hallgrímskirkju

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið hefur í umsögn sinni til fjárlaganefndar lagst gegn því að nefndin veiti tíu milljóna króna styrk til endurbóta á Hallgrímskirkju í Saurbæ. Forsaga málsins er sú að 28. júlí 2027 mun kirkjan eiga 70 ára vígsluafmæli. Af því tilefni hafa Hollvinasamtök kirkjunnar í undirbúningi endurbætur á kirkjunni og umhverfi hennar. Sendu samtökin því fjárlaganefnd Alþingis beiðni um fjárstuðning. Í bréfinu kemur fram að stefnt sé að uppsetningu nýs ljósakerfis og lýsingar kirkjunnar að utan. Einnig er stefnt að uppsetningu brunavarnarkerfis sem ekki er til staðar í dag. Þá er stefnt að uppsetningu nýs orgels, sem áður var í Grensáskirkju, og eldra orgel tekið niður. Þær breytingar kalla á tilfærslu á grátum kirkjunnar. Að síðustu eru nefndar í bréfinu framkvæmdir við göngustíg á lóð kirkjunnar að Hallgrímssteini.