
35 ungliðar í Hrútaskrá ársins sem komin er á vefinn
Hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna fyrir 2025-26 er komin á vefinn, sjá hér. Blað þetta er mikið lesið og kærkomið áhugafólki um sauðfjárrækt. Skráin er að þessu sinni 56 síður að stærð og inniheldur upplýsingar um 46 hrúta sem notaðir verða til sæðinga í vetur.
„Hrútakosturinn er gríðarlega öflugur þrátt fyrir að vera að mestu leyti skipaður lambhrútum. Þannig eru aðeins ellefu hrútar sem hafa verið áður á stöð en 35 ungliðar koma nú fram á sjónarsviðið, hver öðrum betri. Þessi mikla endurnýjun er liður í innleiðingu verndandi arfgerða gegn riðu og er ekki annað að sjá en ræktun gegn riðu samhliða ræktun fyrir kjötgæðum og öðrum kostum gangi vonum framar. Í það minnsta ber hrútakosturinn þess merki,“ segir í tilkynningu frá RML.
Ritstjóri Hrútaskrár er Guðmundur Jóhannesson en efni er að mestu tekið saman og skrifað af Árna B. Bragasyni, Eyþóri Einarssyni og Fanneyju Ólöfu Lárusdóttur. Flestar ljósmyndir í skránni eru teknar af Höllu Eygló Sveinsdóttur en auk hennar tóku Birna Sigurðardóttir og Torfi Bergsson myndir af hrútum.