
Guðveig tilkynnir að hún gefi ekki kost á sér í oddvitasætið
Guðveig Lind Eyglóardóttir oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð og forseti sveitarstjórnar, var að tilkynna að hún gefi ekki kost á sér til forystu áfram fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor. „Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér áfram í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara á næsta ári og vinn því þessa dagana með starfsmönnum ráðhússins og sveitarstjórn að minni síðustu fjárhagsáætlun fyrir Borgarbyggð,“ skrifar Guðveig. „Ég mæti þessari áætlunarvinnu af auðmýkt og þakklæti fyrir þau ca. 12 ár sem ég hef fengið tækifæri til að sinna hlutverki mínu sem kjörinn fulltrúi. Þessi ár hafa verið bæði lærdómsrík, ánægjuleg og krefjandi.
Ég vil sérstaklega nýta þetta tækifæri til að þakka fyrir það traust sem ég hef notið frá íbúum Borgarbyggðar fyrir þann tíma sem ég hef gegnt trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélagið. Ég vil einnig færa öllum starfsmönnum sveitarfélagsins, samstarfsfólki í sveitarstjórn, nefndum og ráðum, auk forystu Framsóknar í Borgarbyggð mínar innilegustu og bestu þakkir fyrir gott og árangursríkt samstarf undanfarin ár. Það hefur verið mér sönn ánægja að vinna með metnaðarfullu, duglegu og samheldnu fólki að sameiginlegum hagsmunum samfélagsins.“
Þá segir Guðveig að Framsókn í Borgarbyggð hafi á yfirstandandi kjörtímabili lagt áherslu á ábyrg fjármál, bætta þjónustu við íbúa og áframhaldandi uppbyggingu í leik- og grunnskólum, íþróttaaðstöðu og samgöngum. „Stórátak hefur verið gert í skipulagsmálum á kjörtímabilinu. Um tvöhundruð íbúða einingar hafa verið skipulagðar og um fimmtíu atvinnulóðir. Sérstök áhersla hefur verið lögð á verkefni sem lúta að bættri lýðheilsu og fjölbreyttum tómstundum fyrir eldri íbúa. Stutt hefur verið við úrbætur á upplýsingatækniumhverfi sveitarfélagsins með samræmingu, hagkvæmni og öryggi í huga svo eitthvað sé nefnt.“
Loks segist hún ætla að njóta þess að sinna sínu hlutverki fyrir sveitarfélagið alla daga fram á næsta vor og muni að sjálfsögðu áfram vera helsta klappsýra Borgarbyggðar til framtíðar og fylgjast með þróun sveitarfélagsins. „Takk einlæglega og ævinlega fyrir traustið og tækifærið til að vinna að málefnum Borgarbyggðar.“