Fréttir

Gríðarlegt högg ef ESB leggur á verndartolla á kísilmálm

Ísland og Noregur fá ekki undanþágu frá fyrirhuguðum verndaraðgerðum Evrópusambandsins vegna kísilmálms, samkvæmt tillögu sem framkvæmdastjórn ESB kynnti í gær. Aðildarríki ESB eiga þó eftir að gefa endanlegt samþykki. Ljóst er að ef ESB ríkin samþykkja þetta verður um gríðarlegt högg að ræða fyrir starfsemi Elkem Ísland á Grundartanga, eins og þegar hefur komið fram í ályktun sveitarfélagsins Hvalfjarðarsveitar um málið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í gær íslenskum og norskum stjórnvöldum að ríkin tvö fengju ekki undanþágu frá fyrirhuguðum verndaraðgerðum sambandsins, vegna kísilmálms, sem verið hafa í undirbúningi síðustu misserin. Fréttavefur Ríkisútvarpsins greinir frá því að utanríkismálanefnd Alþingis hafi í gærkvöldi verið upplýst um þessa ákvörðun ESB. Utanríkisráðuneytið hefur verið í sambandi við hagsmunaaðila, meðal annars Samtök iðnaðarins og Elkem á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu RUV er ekki öll nótt úti enn, því tillaga um verndaraðgerðir, sem stjórnvöld á Íslandi og í Noregi fengu í gær, verður á næstu dögum, mögulega á föstudaginn, tekin fyrir í sérstakri nefnd framkvæmdastjórnar ESB sem fjallar um mál af þessu tagi. „Þar eiga fulltrúar aðildarríkjanna sæti og á fundi þeirra ræðst líklega endanlega hvort verndaraðgerðirnar koma til framkvæmda og hvort Ísland og Noregur verða undanþegin þeim,“ segir í frétt RUV

Vonast hafði verið til að Ísland og Noregur yrðu undanþegin aðgerðum af þessu tagi, ekki síst eftir að Evrópusambandið tók slíka ákvörðun þegar tilkynnt var nýlega um verndaraðgerðir vegna stálframleiðslu í ESB-ríkjunum.

Í yfirlýsingu sem utanríkisráðuneytið var að senda vegna málsins segir: „Utanríkisráðuneytinu er kunnugt um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi sett fram nýjar tillögur að verndarráðstöfunum vegna innflutnings á járnblendi. Tilkynning þessa efnis barst til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ekki er um endanlega ákvörðun að ræða en hún er í höndum aðildarríkja Evrópusambandsins. Nú stendur yfir vinna í ráðuneytinu við að fara yfir tillögurnar og þýðingu þeirra fyrir Ísland og hin EES/EFTA-ríkin innan EES. Verði þetta niðurstaðan skiptir útfærsla aðgerðanna miklu máli en íslensk stjórnvöld munu áfram verja íslenska hagsmuni í málinu. Utanríkismálanefnd var upplýst um stöðu mála um leið og fregnir bárust og þá er í gangi virkt samtal við haghafa hér á landi.“