
Snæfell og Skallagrímur jöfn að stigum
Skallagrímsmenn fengu lið Fylkis í heimsókn á föstudagskvöldið þegar fimmta umferð í 1. deild karla í körfuknattleik fór fram. Lið Fylkis var fyrir leikinn án stiga í deildinni. Lið Skallagríms hafði frumkvæðið lengst af í leiknum. Eftir fyrsta hluta var staðan 29-21 Skallagrími í vil og í hálfleik var staðan 58-39. Leikurinn var jafnari í síðari hálfleik og þegar upp var staðið var sigurinn Skallagrímsmanna sem skoruðu 100 stig gegn 81 stigi Fylkismanna. Sævar Alexander Pálmason var stigahæstur heimamanna með 18 stig, Milorad Sedlarevic skoraði 16 stig, Jose Medina Aidana skoraði 15 stig, Matt Treacy með 14 stig, Jermaine Vereen með 11 stig, Magnús Engill Valgeirsson með 7 stig, Kristján Sigurbjörn Sveinsson með 4 stig, Benjamín Karl Styrmisson og Guðmundur Elís Pálmason með 3 stig hvor og Sigurður Darri Pétursson og Jóhannes Valur Hafsteinsson með 2 stig hvor.