
Mótmæla harðlega frumvarpi um opinbera háskóla
Fyrir helgi rann út frestur til að skila inn umsögnum í Samráðsgátt um frumvarp menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Meginefni frumvarpsins felur í sér nýtt heimildarákvæði í lögum um opinbera háskóla, fyrir tvo eða fleiri sjálfstæða háskóla, sem njóta viðurkenningar samkvæmt lögum um háskóla, til að sameinast undir merkjum háskólasamstæðu, sem lýtur sameiginlegri yfirstjórn. Háskólum er þannig heimilt að stofna háskólasamstæðu, þar sem tveir eða fleiri sjálfstæðir háskólar, sem njóta viðurkenningar samkvæmt lögum um háskóla, sameinast undir merkjum háskólasamstæðu, sem lýtur sameiginlegri yfirstjórn. Lagt er til í frumvarpinu að háskólum landsins skuli skipt í svokallaða flaggskipsháskóla og aðildarháskóla. Flaggskipsháskóli hefði yfir 5000 nemendur. Hann/þeir skulu leiða háskólasamstæðu og rektor og háskólaráð þess háskóla fara með stjórn samstæðunnar og þeirra háskóla sem undir hana heyra. „Þeir háskólar sem sameinast flaggskipsháskóla kallast aðildarháskólar og bera sama heiti og flaggskipsháskóli auk tilvísunar til staðsetningar eða hlutverks. Við stofnun háskólasamstæðu skulu að lágmarki 5.000 nemendur stunda nám við flaggskipsháskóla.“ Einungis Háskóli Íslands hefur í dag fleiri en 5000 nemendur. Útilokað er fyrir aðra háskóla að vera skilgreindir sem flaggskipsháskólar án þess að sameinast, tveir eða fleiri, í eina stofnun. Án sameiningar yrði að óbreyttu HÍ eini flaggskipsháskólinn.