Íþróttir
Stigi fagnað af innlifun í fyrstu hrinu. Ljósm. tfk

Álftanes fór með sigur úr Grundarfirði

Ungmennafélag Grundarfjarðar tók á móti liði Álftaness í 1. deild kvenna í blaki á sunnudaginn. Heimastúlkur byrjuðu betur og voru komnar með góða forystu í fyrstu hrinu áður en gestirnir tóku við sér og jöfnuðu metin í 19-19. UMFG náði þó að klára hrinuna með 25-22 sigri og komast í 1-0 í leiknum. Í annarri hrinu byrjuðu heimamenn aftur betur og voru komnar í 18-13 áður en gestirnir tóku við sér og skoruðu 9 stig í röð og tóku forystuna 18-22 og kláruðu svo hrinuna 21-25 og jöfnuðu þar með metin 1-1. Eitthvað virtust heimakonur slegnar útaf laginu því að gestirnir náðu fljótt yfirhöndinni í þriðju hrinu og héldu henni út hrinuna sem endaði með 21-25 sigri gestanna og staðan því orðin 1-2. Þrátt fyrir ágætis byrjun heimamanna þá tóku gestirnir fljótt forystuna og enduðu á að tryggja sér 1-3 sigur með 18-25 sigur í fjórðu og síðustu hrinu.