Fréttir
Rútan fór útaf veginum án þess að velta og því slasaðist enginn. Ljósm. Landsbjörg.

Enginn slasaðist þegar rúta fór útaf veginum á Skarðsströnd

Síðdegis í gær barst björgunarsveitinni Ósk í Búðardal útkall vegna rútu sem hafði lent út af veginum á Skarðsströnd í Dölum, skammt frá bænum Klifmýri. 45 farþegar voru um borð, en ekki urðu nein slys á fólki. Björgunarsveitin fór á staðinn á eigin tækjum auk þess að útvega stærri fólksflutningabíl til að ferja farþega rútunnar af staðnum. Var farið með mannskapinn í félagsheimilið Tjarnarlund í Saurbæ þar sem björgunarsveitin bauð upp á léttar veitingar, brauð og drykki, meðan beðið var annarrar rútu frá ferðaþjónustuaðilunum til að halda för hópsins áfram. Um klukkan hálf átta í gærkvöldi voru allir farnir frá Tjarnarlundi.