Fréttir

Ævintýraheimur íslenskra fugla

Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út barnabókina; Ævintýraheimur íslenskra fugla 1. Bókin er skrifuð af Sigurði Ægissyni og ætluð aldurshópnum 1–12 ára. Bókin er hugsuð þannig, að pabbi, mamma, afi eða amma eða þá eldri systkini lesi úr henni fyrir þau allra yngstu á kvöldin og e.t.v. spjalli um innihaldið, en önnur, sem komin eru í fyrstu bekki grunnskóla, eiga að geta notið hennar án aðstoðar. Þarna er um að ræða ýmsan fróðleik um 16 fuglategundir af þeim 75–80 tegundum sem eru hér reglubundnir varpfuglar. Þetta eru; álft, glókollur, heiðlóa, helsingi, hrafn, hrossagaukur, kría, krossnefur, lundi, maríuerla, músarrindill, rjúpa, snjótittlingur, spói, svartþröstur og æðarfugl. Gert er ráð fyrir nokkrum öðrum bókum í sama flokki á næstu árum, uns búið verður að dekka allar varptegundir okkar. Hin síðasta mun fjalla um 16 langt aðkomna gesti, en á Íslandi hafa sést rúmlega 400 fuglategundir frá upphafi skráningar.