
Tilkynningum til barnaverndar fjölgar
Á fyrstu sex mánuðum ársins bárust barnavernd á landinu öllu 9.610 tilkynningar en þær voru 8.515 á sama tíma á síðasta ári. Er því um að ræða 12,9% fjölgun tilkynninga á milli ára. Fjölgun tilkynninga á milli ára var mest í nágrenni Reykjavíkur um 19,4% og á landsbyggðinni um 17,8%. Fjölgunin var minni í Reykjavík eða 3,4%. Þetta kemur fram í tölum frá Barna- og fjölskyldustofu. Líkt og fyrri ár voru flestar tilkynningar á árinu vegna vanrækslu barna en þeim fjölgaði þó minna en tilkynningum vegna ofbeldis gegn börnum, sem fjölgaði um 22,6% og tilkynningum um áhættuhegðun barna sem fjölgaði um 17,2%. Í tölum Barna- og fjölskyldustofu kemur einnig fram að tilkynningum vegna áhættuhegðunar barna hefur fjölgað um 38% á milli áranna 2023-2025. Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu sex mánuðum ársins 2025 var 7.214 börn en sambærilegur fjöldi barna fyrir árið 2024 var 6.481 barn og 5.946 börn árið 2023.