Fréttir
Forsetahjónin tóku í morgun við fyrsta Neyðarkalli björgunarsveitanna 2025.

Sala Neyðarkalls björgunarsveitanna er hafin

Í morgun kom Halla Tómasdóttir forseti Íslands ásamt Birni eiginmanni sínum að Elliðaánum í Reykjavík þar sem hún tók á móti fyrsta Neyðarkalli 2025. Að þessu sinni var það öflugur straumvatnsbjörgunarhópur sem flutti Neyðarkallinn yfir straumvatnið og afhenti forseta. Við þetta tilefni ítrekaði Halla mikilvægi sjálfboðaliðastarfs Slysavarnafélagsins Landsbjargar fyrir samfélagið og vonaðist til að vel yrði tekið á móti sölufólki.

„Að þessu sinni er Neyðarkallinn í hlutverki straumvatnsbjörgunarmanns og þannig heiðrum við minningu góðs félaga, Sigurðar Kristófers McQuillan Óskarssonar, sem lést í hörmulegu slysi við æfingar í straumvatni, fyrir rétt um ári síðan. Það var gert í góðu samráði við fjölskyldu Sigurðar og björgunarsveitina Kyndil, sem hann veitti formennsku,“ segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

Þetta er ár hvert ein af stóru fjáröflunarleiðum björgunarsveitanna og stendur undir eðlilegri endurnýjun björgunarbúnaðar og þjálfunar félaga björgunarsveita um land allt. Björgunarsveitarfólk verður áberandi við fjölfarna staði næstu daga og í einhverjum sveitarfélögum verður gengið í hús. Sölunni lýkur næstkomandi sunnudag.