
Menningarmót yngstu nemenda á Varmalandi
Fimmtudaginn 30. október var opið hús í Grunnskóla Borgarfjarðar, Varmalandsdeild, og leikskólanum Hraunborg. Tilefnið var Menningarmót 1.-4. bekkjar og elsta árgangs leikskólans. Fyrr í vikunni höfðu börnin fengið kynningu frá Kristínu Rannveigu Vilhjálmsdóttur um hvað það er sem felst í að halda Menningarmót og um hugtakið menningu.
Verkefnið er sniðin aðferð til að varpa ljósi á styrkleika, fjölbreytta menningu, tungumál og áhugasvið nemenda. Meðal þess sem nemendur unnu að til að kynna sína persónulegu menningu var Söguvegur, en þar greina börnin frá því sem þeim finnst merkilegast á sinni lífsleið. Hvert og eitt gerði sína sól þar sem geislarnir voru birtingarmynd þess sem fær þau til að ljóma. Það voru t.d. vinir og fjölskylda, áhugamál svo sem tónlist, kvikmyndir, leikir, dýr og þess háttar. Lokaafurðin var síðan fjársjóðskista sem hefur að geyma þá muni og myndir sem börnin telja skipta sig mestu máli.
Þá var tungumálinu gert hátt undir höfði. Hvert okkar hefur sitt tungumál og sumir fleiri en eitt og fleiri en tvö.
Opna húsið var uppskerudagur þar sem nemendum gafst tækifæri til að sýna sitt verkefni og segja frá. Gestir gátu gengið um og rætt við hvern og einn nemanda um fjársjóðskistuna þeirra en þetta er mikil þjálfun fyrir erlenda nemendur til að æfa sig í íslenskunni ásamt því að allir nemendurnir þjálfuðust í að tala skýrt og kynna sína menningu.
Menningarmótið gekk framar vonum og voru allir ánægðir að degi loknum, bæði gestir og nemendur. Við viljum að lokum senda Kristínu Vilhjálmsdóttur kærar þakkir fyrir að gera þetta verkefni að veruleika með okkur.
Sigurlaug Kjartansdóttir og Sólrún Halla Bjarnadóttir
Ljósmyndir: Þóra Magnúsdóttir og Sólrún Halla Bjarnadóttir.
