
Tónleikar til styrktar góðu málefni
Þriðjudaginn 28. október voru haldnir örtónleikar í Grundarfjarðarkirkju. Þar spilaði Þorkell Máni Þorkelsson organisti undir og Sylvía Rún Guðnýjardóttir söng af mikilli innlifun. Enginn aðgangseyrir var rukkaður en fólki var bent á að styrkja gott málefni. Þau Sylvía og Máni ákváðu að láta þann aðgangseyrir sem safnaðist renna óskertan til Herdísar og Óla sem eru ung hjón frá Stykkishólmi sem standa í stórræðum þessa dagana. Herdís Ýr Ásgeirsdóttir er með sjaldgæfan taugasjúkdóm (Trigeminal Neuralgia) sem hefur háð henni undanfarin ár. Sjúkdómurinn veldur miklum sársauka í andliti sem minna á raflost eða bruna. Herdís og Óli eru nú stödd í Danmörku þar sem hún hefur farið í aðgerð sem á að bæta líðan hennar. Peningaáhyggjur eiga ekki að vera hluti af svona lífsreynslu og vilja þau leggja baráttunni lið.
Vel var mætt á tónleikana og í dag, þriðjudaginn 4. nóvember, verða aðrir örtónleikar þegar Þorkell Máni spilar og Lárus Ástmar Hannesson syngur og aftur er fólk hvatt til að leggja baráttunni lið.