
Vilja leyfa fuglaveiði á kornökrum utan hefbundins veiðitíma
Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknarflokksins og þrír aðrir þingmenn Framsóknarflokks og Miðflokks hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma. Lagt er til að Alþingi álykti að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að útbúa tillögur um heimild til tímabundinna og skilyrtra veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja á kornökrum og túnum frá 15. mars til 20. ágúst og á álft á kornökrum frá 1. maí til 1. október. Leyfin verði veitt á þeim svæðum þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna verulegs ágangs fugla á tún og kornakra. Þá geri ráðherra einnig stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi í samvinnu við Náttúruverndarstofnun og hagsmunaaðila og er gert ráð fyrir að ráðherra greini Alþingi frá tillögum sínum og skýrslu eigi síðar en 1. desember 2026.