
Starf iðjuþjálfa auglýst fyrir verkefnið Gott að eldast
Verkefninu Gott að eldast var hrundið af stað sem samvinnuverkefni Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis fyrir rúmum tveimur árum. Það snýst meðal annars um að finna úrræði í samfélaginu til að auka félagslega virkni eldra fólks. Eldra fólk skal búin tækifæri til að njóta lífsins á efri árum með áherslu á virkt samfélagslegt hlutverk og að um leið verði komið í veg fyrir félagslega einangrun. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Heilbrigðisstofnun Vesturlands urðu aðilar að verkefninu og voru þær Líf Lárusdóttir og Laufey Jónsdóttir ráðnar til að fylgja því eftir. Vinna þeirra snýst um þá þjónustu sem veitt er í sveitarfélögum og stendur eldra fólki til boða og gengur út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum og flétta vandlega saman þeim þáttum sem ríkið sér annars vegar um og sveitarfélögin hins vegar. Lögð er áhersla á að auka virkni eldra fólks í samfélaginu með því að finna aukin úrræði fyrir þennan vaxandi aldurshóp. Í síðustu viku auglýstu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi eftir iðjuþjálfa í fullt starf og er umsóknarfrestur til 10. nóvember næstkomandi. Hlutverk iðjuþjálfans verður teymisstjórn og að leiða áfram þróunarkefnið Gott að eldast á Vesturlandi. Blaðamaður Skessuhorns settist niður með Líf Lárusdóttur en hún er í hlutastarfi hjá SSV sem verkefnisstjóri en hún er auk þessa starfs formaður bæjarráðs Akraneskaupstaðar.