
Skallagrímur landaði sigri en Snæfell tapaði í Kórnum
Það var ólíkt gengi Vesturlandsliðanna í 1. deild karla í körfuknattleik þegar fjórðu umferð deildarinnar lauk á föstudaginn. Bæði liðin lögðu land undir fót. Lið Skallagríms hélt í Hveragerði þar sem það mætti Hamri. Skallagrímsmenn höfðu frumkvæðið nánast allan leikinn. Leiddu með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta og í hálfleik var staðan 50-58. Það var svo í þriðja leikhluta sem verulega fór að draga í sundur með liðunum og í lok hans var staðan 67-94. Í fjórða leikhluta tókst Hamarsmönnum að klóra örlítið í bakkann. Leiknum lauk með sigri Skallagríms með 118 stigum gegn 95 stigum Hamars. Atkvæðamestir í liði Skallagríms voru Matt Treacy með 22 stig og 5 fráköst, Magnús Engill Valgeirsson með 21 stig og 9 fráköst, Sævar Alexander Pálmason með 19 stig og 4 fráköst, Milorad Dedlarevic með 17 stig og 5 fráköst, Jose Medina Aldana með 15 stig, 5 fráköst og 10 stoðsendingar, Kristján Sigurbjörn Sveinsson með 8 stig og 5 fráköst, Jermaine Vereen með 7 stig, 7 fráköst og 3 varin skot, Jóhannes Valur Hafsteinsson með 5 stig og Jón Árni Gylfason með 4 stig.