Fréttir

Ný tækifæri fyrir íbúa Vesturlands

Fimmtudaginn 6. nóvember verður formlega opnaður nýr nýsköpunarklasi á Hvanneyri í tengslum við UNIgreen-háskólasambandið. Með klasanum tengist Vesturland beint við öflugt alþjóðlegt samstarf átta háskóla í Evrópu sem leggja áherslu á sjálfbæran landbúnað, líftækni og matvælaiðnað framtíðarinnar.

Vettvangur fyrir hugmyndir og ný fyrirtæki

„Markmið klasans er að skapa lifandi vettvang þar sem hugmyndir geta þróast í verkefni og ný fyrirtæki. Nemendur, vísindamenn og frumkvöðlar fá aðgang að aðstöðu, leiðsögn og alþjóðlegu tengslaneti til að vinna að lausnum tengdum landbúnaði, líftækni, matvælaöryggi og grænni orku. Við viljum að þessi klasi verði brú milli vísinda og atvinnulífs,“ segir Christian Schultze, alþjóðafulltrúi LBHÍ og einn af leiðandi aðilum í verkefninu. „Þannig fá hugmyndir sem spretta upp í héraðinu tækifæri til að vaxa og dafna,“ bætir hann við.

Stuðningur við íbúa svæðisins

Klasinn er ekki eingöngu ætlaður háskólanum. Allir íbúar Vesturlands geta leitað þangað með sínar hugmyndir og fengið aðstoð við að þróa þær áfram. Þar verður í boði ráðgjöf, aðgangur að tækjum og tenging við sérfræðinga bæði heima og erlendis. „Það á að auka möguleika íbúa til að stofna eigin fyrirtæki eða hefja verkefni sem byggja á nýsköpun og sjálfbærni. Samstarf Landbúnaðarháskólans, Borgarbyggðar og atvinnulífs á svæðinu er talið styrkja stöðu Vesturlands sem leiðandi svæðis í grænum lausnum og nýsköpun. Ávinningurinn er margvíslegur; aukin atvinnusköpun, betri tækifæri fyrir ungt fólk og sterkari tengsl við alþjóðlegt vísindasamfélag.“

Opnun – öllum boðið að taka þátt

Opnunarhátíðin verður haldin fimmtudaginn 6. nóvember kl. 12:00 á Hvanneyri. Þar verður farið yfir markmið verkefnisins, boðið verður í skoðunarferð um aðstöðuna og veitingar í boði. „Þetta er nýr áfangastaður fyrir hugmyndir á Vesturlandi,“ segir Lukáš Pospíšil verkefnastjóri Landbúnaðarháskólans. „Við viljum að hver og einn geti komið með hugmyndir sínar og fundið hér stuðning og úrræði til að láta þær verða að veruleika.“