
Gísli kaupir meirihluta í Jörfa á Hvanneyri
Nýverið var gengið frá samningum um kaup Vélafólksins ehf., sem er í meirihlutaeigu Gísla Jósefssonar, á stærstum hluta í verktakafyrirtækinu Jörfa ehf. á Hvanneyri. Fyrirtækið var stofnað árið 1978. Haukur Júlíusson er einn af sex stofnendum fyrirtækisins og hefur verið driffjöðrin í rekstri þess alla tíð. Hann mun þó til að byrja með, ásamt Ingibjörgu Jónasdóttur konu sinni, eiga tæpan þriðjung í fyrirtækinu, hyggst liðka til fyrir Gísla svo kaupin verði honum ekki eins þung. Þeir sem nú selja hluti sína eru þeir Ólafur Jóhannesson, Gísli Sverrisson, Sigurður Pétursson og Þorsteinn Júlíusson. Blaðamaður Skessuhorns leit fyrir helgi við hjá þeim Gísla og Hauki í húsnæði Jörfa við Melabraut á Hvanneyri. Þeir voru þar að dunda sér og greinilegt að vel fór á með þeim félögum. Gísli sagði ómetanlegt að hafa Hauk sér við hlið meðan hann er að læra á sitthvað í rekstrinum og ekki síður hvar hlutirnir eru geymdir.