
Cruise Iceland heimsótti Snæfellsnes
Sigurður Jökull Ólafsson framkvæmdastjóri Cruise Iceland var á ferð um Snæfellsnes miðvikudaginn 15. október síðastliðinn. Tilgangur heimsóknarinnar var að ræða við félagsmenn í Cruise Iceland og fara yfir nýjustu vendingar varðandi innviðagjald á skemmtiferðaskip og afnám tollfrelsis á skemmtiferðaskip í hringsiglingum. Eins og kunnugt er hefur innviðagjald sem ríkisstjórnin hefur boðað dregið úr bókunum skemmtiferðaskipa hingað til lands, einkum á landsbyggðinni. „Síðustu vikur hafa skipafélög sem gera út skemmtiferðaskip, sveitarfélög og Cruise Iceland, fundað með þingmönnum og fólki úr stjórnsýslunni. Hafa þeir hlotið góða áheyrn og fengið aukinn skilning þegar þeir viðra áhyggjur sínar og svo virðist sem það sé grundvöllur til bjartsýni fyrir stöðugra rekstrarumhverfi í komu skemmtiferðaskipa hér á landi,“ segir Pálmi Jóhannsson menningar- og markaðsfulltrúi hjá Grundarfjarðarbæ.