
Pósturinn afnemur öll afsláttarkjör til stórnotenda
Á heimasíðu Íslandspósts má nú lesa svohljóðandi tilkynningu: „Frá og með 1. desember 2025 mun Pósturinn fella úr gildi öll afsláttarkjör á 0-2.000 gramma bréfum innanlands.“ Hún lætur ekki mikið yfir sér þessi tilkynning en mun engu að síður hafa afgerandi þýðingu fyrir alla sem senda til dæmis magnpóst til áskrifenda, þ.e. fleiri en 100 bréf í einu. Í áratugi hefur fyrirtækið veitt afslátt sem tekur mið af magni viðskipta. Afslátturinn hefur verið frá 2-20% og farið eftir þyngd og magni. Það á til dæmis við um útgefendur dag- og vikublaða, þá sem senda út innheimtubréf, reikninga á blaðformi og fleira.