Fréttir
Björn Ýmir Kristófersson, 14 ára blaðberi í Borgarnesi. Ljósm. mm

Mokaði tröppurnar um leið og hann bar út Skessuhornið

Það var þakklátur áskrifandi Skessuhorns sem hringdi í ritstjórann í gær. Sæunn Jónsdóttir, sem býr ásamt Birni manni sínum í efri hæð hússins við Bröttugötu 4b í Borgarnesi, segist sjaldan á ævinni hafa upplifað jafn mikla hjálpsemi og elskulegheit og hjá unga manninum sem ber út Skessuhorn til hennar á hverjum miðvikudegi. Fyrr í vikunni hafði snjóað töluvert í Borgarnesi og orðið illfært að húsi hennar. Þar sem þau hjón eru bæði orðin fótalúin treystu þau sér ekki úr húsi. „Um leið og hann færði okkur blaðið bauðst hann til að moka snjóinn af tröppunum upp til okkar og framan við útidyrnar. Tók síðan skóflu í hönd og hreinsaði allan snjó. Ég vildi bara koma þessu á framfæri til að þakka fyrir okkur og láta aðra vita af þessum yndislega unga manni,“ sagði Sæunn.

Blaðburðadrengurinn sem í hlut á heitir Björn Ýmir Kristófersson og er 14 ára nemandi í Grunnskóla Borgarness. Hann var umsvifalaust valinn starfsmaður októbermánaðar.