
Gistinóttum fjölgaði í september
Gistinóttum fjölgaði á hótelum á Vesturlandi og Vestfjörðum um 6,8% í september. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands. Alls voru gistinætur á landinu öllu 544 þúsund í september og hafði fjölgað um 6% frá árinu 2024. Um fjölgun var að ræða í öllum landshlutum nema á Suðurnesjum. Mest varð fjölgunin á Suðurlandi þar sem gistinóttum fjölgaði um 15% á milli ára. Markverður vöxtur var einnig á milli ára á Austurlandi og Norðurlandi auk Vesturlands og Vestfjarða. Lítill vöxtur varð á höfuðborgarsvæðinu eða um 1,6%.