
Stækkun námu við Litlu-Fellsöxl skuli í umhverfismat
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti samhljóða á fundi sínum á dögunum að staðfesta skoðun umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar um að stækkun efnisnámu við Litlu-Fellsöxl skuli háð umhverfismati. Það er er fyrirtækið Borgarverk ehf. sem undanfarið hefur rekið efnisnámu á jörðinni. Að mati fyrirtækisins hafa þar verið unnin um 185.000 rúmmetrar af efni og eftir sé í núverandi námu um 10-15.000 rúmmetrar. Núverandi vinnslusvæði er 13 hektarar en með fyrirhugaðri stækkun verður námasvæðið alls um 23 hektarar að stærð. Áætlað er að efnisvinnslan fari fram á næstu 10-15 árum. Náman er við rætur Akrafjalls að norðanverðu, stendur norðan við Fellsendaveg og afmarkast núverandi vinnslu við veginn að sunnanverðu. Núverandi náma hefur ekki ferið í gegnum hefðbundið umhverfismatsferli. Þar sem fyrirhugað nýtt vinnslusvæði er norðan Fellsendavegar lendir vegurinn í námunni sjálfri á vinnslutíma hennar.