
Opið hús í nýjum og endurnýjuðum mannvirkjum
Nokkur tímamót verða á laugardaginn þegar íbúum á Akranesi verður boðið að skoða ný og endurbætt skóla- og íþróttamannvirki bæjarfélagsins. Þar skal fyrst nefna nýtt fjölnota íþróttahús sem á undanförnum árum hefur verið í byggingu við Jaðarsbakka. Í öðru lagi líkamsræktarstöð sem World Class opnaði í eldra íþróttahúsinu við Jaðarsbakka og síðast en ekki síst verður endurbættur Grundaskóli opinn gestum.
Öllum Akurnesingum er boðið að skoða umræddar byggingar frá kl. 12-14. Í nýja íþróttahúsinu verður leiðsögn í boði um húsið á heila og hálfa tímanum og verður lagt af stað úr anddyri hússins. Í Grundaskóla munu nemendur og kennarar taka vel á móti gestum og gangandi. Í tilefni dagsins verður frítt í sund á Jaðarsbökkum.