Fréttir

Gular viðvaranir taka gildi í fyrramálið víða um land

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir um allt land að undanskildu Norðurlandi eystra. Gul viðvörun við Faxaflóa gildir frá klukkan 11 í fyrramálið og nær til kl. 9 að morgni laugardags. Þá er spáð hvassviðri eða norðaustan stormi, 15-23 m/s einkum á sunnanverðu Snæfellsnesi. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 30 m/s. Varasamt veður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Jafnframt segir afmarkaðar samgöngutruflanir séu líklegar og lokanir á vegum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munun til að forðast tjón.

Gul viðvörun við Breiðafjörð gildir frá kl. 12 á hádegi á morgun og gildir hún til kl. 6 að morgni laugardags. Spáð er hvassviðri eða stormi 15-23 m/s. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll staðbundið yfir 30 m/s einkum í Dölum og á Barðaströnd. Varasamt fyrri ökutæki sem taka á sig mikinn vind og afmarkaðar samgöngutruflanir eru taldar líklegar. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Í athugasemdum veðurfræðings segir:  „Gengur í norðaustan storm á morgun. Búast má við talsverðri eða mikilli úrkomu á austanverðu landinu. Auk þess er útlit fyrir ört hækkandi hitastig. Búast má við rigningu á Suðvesturlandi seint í kvöld og á morgun með hlýnandi veðri. Líklegt er að glerhálka myndast á þjöppuðum snjónum á vegum og gangstéttum.“