Fréttir
Norðurál á Grundartanga. Ljósm. mm

Enn er óvíst hvort grípa þurfi til uppsagna hjá Norðuráli

Stjórnendur og starfsmenn Norðuráls á Grundartanga vinna enn hörðum höndum að því verkefni að hægt verði að koma framleiðslu fyrirtækisins í fullan gang eftir bilun sem varð í síðustu viku. Sólveig Bergmann framkvæmdastjóri samskipta og samfélagsmála hjá Norðuráli segir í samtali við Skessuhorn að leitað sé allra leiða til þess að koma framleiðslunni í fyrra horf og sem fyrst. Þar séu margir kostir til skoðunar. Einn þeirra kosta sem til skoðunar er hvort möguleg sé bráðabirgðaleið þar til nýr búnaður verður til reiðu. Hún staðfestir að allir þeir kostir sem til skoðunar séu lúti að því að framleiðslan komist í fyrra horf.

Aðspurð segir Sólveig að enn sé ekki að fullu ljóst hvað olli biluninni í síðustu viku. Sögusagnir hafa verið í gangi um að búnaður sá er gaf sig hafi verið kominn fram yfir líftíma sinn en Sólveig segir svo ekki vera. Viðhaldsstefna fyrirtækisins sé skýr, öllum búnaði sé skipt út áður en væntur líftími hans rennur út.

Norðurál er með raforkusamninga við nokkur orkufyrirtæki og að sögn Sólvegar liggur enn ekki fyrir hvort og þá með hvaða hætti fyrirtækið þurfi að uppfylla þá við núverandi stöðu en það komist vonandi á hreint fljótlega.

Stjórnendur Norðuráls áttu í fyrradag fund með sveitarstjórnarmönnum og alþingismönnum Norðvesturkjördæmis þar sem rædd var sú staða sem upp kom í síðustu viku. Haraldur Benediktsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar ritaði færslu á Facebook í gærmorgun þar sem segir orðrétt; „að enn séu engin áform um uppsagnir starfsmanna,“ og hafa þau orð verið túlkuð víða sem að ekki verði gripið til uppsagna starfsfólks. Aðspurð segist Sólveig alls ekki geta staðfest að ekki verið gripið til uppsagna starfsfólks. Hún segir að það væri afar óábyrgt að gefa slík skilaboð til samfélagsins þegar enn væri ekki ljóst með hvaða hætti og hversu langan tíma það taki að koma framleiðslunni í samt lag.