Fréttir
Hér er verið að koma viðeigandi skóbúnaði undir síðasta lögreglubíl embættis LV á Akranesi. Ljósm. mm

Annir á dekkjaverkstæðum eftir snjóinn

Óhætt er að segja að landsmenn hafi sofið á verðinum hvað dekkjaskiptin snertir þetta haustið. Fram í lok síðustu viku var fremur rólegt að gera á dekkjaverkstæðum og fáir sem nýttu það til að láta setja vetrardekkin undir. Það var síðan ekki fyrr en Veðurstofan spáði mikilli snjókomu á mánudaginn sem ökumenn brugðust við. Kílómetra langar biðraðir mynduðust þá við dekkjaverkstæðin á höfuðborgarsvæðinu sem bjóða upp á hraðþjónustu. Á Akranesi eru einungis tvö dekkjaverkstæði starfrækt; Bílar og dekk við Akursbraut og N1 við Dalbraut. Að sögn Eyþórs Örlygssonar, sem rekur N1, fór biðtími eftir dekkjaskiptum úr einni viku upp í tæplega fjórar vikur á mánudaginn. Hjá fyrirtækinu er unnið á tveimur lyftum samtímis og segir Eyþór að þeir anni um 70 bílum á dag. Næsti lausi tími hjá N1 í morgun er 24. nóvember.

Annir á dekkjaverkstæðum eftir snjóinn - Skessuhorn