
Undirbúningur Galtarhafnar á sér langan aðdraganda
Það kom mörgum í opna skjöldu þegar sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar kynnti fyrr á þessu ári tilllögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins á þann veg að í landi jarðarinnar Galtarlækjar myndi með tíð og tíma hefjast uppbygging á athafna- og hafnarsvæði. Einkum er þar fyrirhuguð þjónusta við hafnsækna starfsemi og má þar nefna flutningaskip og skemmtiferðaskip ásamt fjölbreyttu athafnasvæði. Áætluð er þar uppbygging á 1.000 metra löngum hafnarkanti með um 40 hektara hafnarsvæði og um 70 hektara athafnasvæði. Á því athafnasvæði er áhersla lögð á nýsköpun og hringrásarhagkerfi. Er þar einkum horft til þjónustu við hafnarstarfsemi, létts iðnaðar og vörugeymslna, ekki ósvipaðri starfsemi og nú er í Sundahöfn í næsta nágrenni við Vogahverfið í Reykjavík. Galtarhöfn verður samhangandi við Grundartangahöfn til suðurs. Lóðir við Galtarhöfn verða athafnalóðir og þar verður ekki leyfð nein mengandi starfsemi. Jafnframt er þar lögð áhersla á lausnir fyrir neysluvatn, fráveitu og raftengingar. Að uppbyggingu lokinni má ætla að einhver hundruð starfa verði til á svæðinu.