
Fjölmörg umferðaróhöpp en öll án teljandi meiðsla
Óhöppum í umferðinni fjölgaði verulega síðustu dægrin samhliða vetrarfærð á vegum. Meðal óhappa í vikunni sem leið nefnir lögregla í dagbók sinni að ekið var á íbúðarhús í Dalasýslu, tjón varð á húsi og bíl en engin slys á fólki. Bifreið hafnaði utan vegar við Hafnarskóg og valt. Ekki urðu slys á fólki en tjón varð á bifreiðinni. Bifreið hafnaði utan vegar og valt á Holtavörðuheiði, einnig án slysa á fólki. Einnig fór bifreið útaf Snæfellsnesvegi og valt. Fernt var í bifreiðinni og fann einn til eymsla og var viðkomandi fluttur á brott með sjúkrabifreið, meiðsli annarra voru ekki talin alvarleg. Bifreið hafnaði utan vegar sunnan við Borgarnes. Fjórir voru í bifreiðinni og fundu til eymsla eftir óhappið og voru fluttir til aðhlynningar með sjúkrabifreið, meiðsli ekki talin alvarleg.