
Brot á umferðarlögum að fara á vanbúnum bílum í ófærð
Miklum snjó kyngdi niður um suðvestanvert landið í gær, þriðjudaginn 28. október. Úrkomumet féll í Reykjavík í þessum mánuði. Margsinnis var búið að vara við því í fjölmiðlum að mikil úrkoma myndi falla og að færð gæti spillst. Það breytti þó ekki því að þúsundir ökumanna á höfuðborgarsvæðinu héldu á vanbúnum bílum út í umferðina. Það þýddi að götur á höfuðborgarsvæðinu tepptust snarlega og fólk sat fast í bílum sínum tímunum saman. Lögregla kallaði björgunarsveitir til aðstoðar við að gera tilraun til að greiða úr flækjunni. Yfir 200 björgunarsveitarmenn komu að þeim störfum. Meðfylgjandi mynd sendi Landsbjörg Skessuhorni af björgunarsveitarfólki að störfum við gatnamót Flugvallavegar og Bústaðavegar í Reykjavík. Myndin er í raun skólabókardæmi um hvernig ökumenn eiga EKKI að haga sér við þessar aðstæður. Þarna er björgunarsveitarmaður að reyna að ýta bíl. Bíllinn er á sumardekkjum. Ökumaðurinn hefur auk þess ekki haft fyrir því að hreinsa allan 27 cm jafnfallna snjóinn að bílþakinu, eða vélarhlífinni, áður en hann hélt af stað. Ef ökumaður hefði þurft að snögghemla hefði snjóhengjan fallið fram og birgt útsýni með tilheyrandi stórhættu.
Ljóst er að lög og reglugerðir um umferð stangast á. Til dæmis hvetur Reykjavíkurborg ökumenn til að nota ekki nagladekk, þrátt fyrir að margsannað sé að þau eru besti skóbúnaður bifreiða við aðstæður að vetri hér á landi. Lögregla sektar svo bíleigendur í samræmi við reglugerð sem kveður á um að notkun nagladekkja er einungis heimil frá 1. nóvember til 15. apríl. Lögregla horfir hins vegar í gegnum fingur sér um hvort sektum er beitt í samræmi við það. Afdráttarlaust kemur þó fram í umferðarlögum að ökumenn skulu ávallt haga akstri í samræmi við aðstæður hverju sinni. Í fjórðu grein umferðalaga segir: „Vegfarandi skal sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu.“
Ökumaður sem ekki hreinsar 27 cm snjó af bíl sínum áður en haldið er á sumardekkjunum út á hálfófærar götur er því að brjóta umferðarlög. Því mætti spyrja: Ef lögregla hefur heimild til að sekta ökumenn fyrir notkun nagladekkja frá 16. apríl til 31. október; ætti hún þá ekki að sama skapi að hafa heimild til að sekta, til dæmis ökumanninn á meðfylgjandi mynd, fyrir stórfellda vanrækslu í umferðinni?