Fréttir
Þessi mynd var tekin af hópnum við upphaf æfingar í gær.

Smellur frumsýndur í Grundaskóla á sunnudaginn

Söngleikurinn Smellur er í anda 9. áratugarins, þar sem herðapúðar, blásið hár, andlitsfarði, mixteip og margt annað lummó ræður ríkjum. Sagan hefur því að geyma margar skemmtilegar og litríkar persónur, hraða atburðarás, kraftmikla tónlist og dans, sem allt blandast saman í skemmtilegan og litríkan hrærigraut. Tíundi bekkur í Grundaskóla frumsýnir Smell sunnudaginn 2. nóvember næstkomandi klukkan 19. Næstu sýningar verða 4., 6. og 7. nóvember og hefjast allar kl. 19.

Smellur var fyrst settur upp árið 2018 en nú er verkið í höndum nemenda í árgangi 2010. Verkið hefur verið aðlagað að hópnum og munu 55 nemendur stíga á svið en auk þeirra sinna rúmlega 20 nemendur öðrum verkefnum eins og tæknistjórn, aðstoð á sýningum, leikmynd og förðun.

Söngleikir hafa lengi verið fastir liðir í starfi Grundaskóla, en frá árinu 2002 hafa frumsamdir söngleikir verið settir upp á þriggja ára fresti. Undanfarin sex ár hefur verkefnið verið lokaverkefni 10. bekkjar, og er talið að nærri 200 manns; nemendur, starfsfólk og foreldrar, taki þátt í því með einum eða öðrum hætti. Aðstandendur leggja mikinn metnað í að gera hverja sýningu að eftirminnilegri upplifun fyrir alla. Viðtökur bæjarbúa og annarra gesta hafa ávallt verið frábærar, og hefur fjöldi sýningargesta jafnan farið yfir þrjú þúsund. Einnig hafa mörg fyrirtæki í bæjarfélaginu styrkt nemendur á ýmsan hátt og eru aðstandendur sýningarinnar þeim þakklátir fyrir.

Verkefni eins og þetta er einstakt tækifæri fyrir nemendur til að stíga út fyrir þægindarammann, taka þátt í skapandi samstarfi og efla félagsfærni. Hægt er að segja að söngleikurinn virki sem sterkt hópeflisverkefni sem sameinar árganginn og styrkir samkenndina.

Miðasalan er á heimasíðu skólans, grundaskoli.is og hægt er að fylgjast með öllu ferlinu á instagram reikningi verksins #smellur2025.

Atriði í sýningunni.

Smellur frumsýndur í Grundaskóla á sunnudaginn - Skessuhorn