
Prjónahelgi í Stykkishólmi fær gest frá Danmörku
Örverslun með „Einrúm“ garn verður opin fyrir alla sunnudaginn 2. nóvember í Stykkishólmi. Í tilkynningu kemur fram að dagana 31. október til 2. nóvember verður haldin prjónahelgi í Sjávarborg í Stykkishólmi. „Þetta er í þriðja sinn sem prjónarar koma saman í Hólminum til að njóta samveru í einstöku umhverfi. Í ár verður Kristín Brynja í Einrúm sérstakur gestur helgarinnar. Hún býr í Danmörku og kemur beint vestur í kyrrðina. Margir þekkja Kristínu Brynju en hún rekur einnig arkitektastofuna Einrúm ásamt eiginmanni sínum Steffan Iewersen. Árið 2011 fluttu þau til Danmerkur og reka arkitektastofuna bæði hér heima og í Danmörku. Auk þess að starfa sem arkitekt hefur Kristín unnið með ull og silki, hannað uppskriftir og gefið þær út. Kristín Brynja er þekkt fyrir vandað garn og eigin prjónahönnun sem seld er bæði hér á landi og erlendis.“