
Undirbúa jöfnun atkvæðavægis í landinu
Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur sett á fót starfshóp sem falið er að undirbúa frumvarp til breytinga á kosningalögum til að auka jafnræði í atkvæðavægi og þingsætadreifingu. Sú vinna er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að ráðast eigi í slíkar breytingar. Ráðherra segir að með skipan starfshópsins sé stigið gott skref í átt að auknu jafnræði gagnvart mikilvægum borgaralegum réttindum sem kosningarétturinn er. „Markmiðið er að tryggja að atkvæði allra landsmanna vegi sem jafnast. Það er grundvallaratriði í lýðræðislegu samfélagi og þar að auki mannréttindamál. Verkefni hópsins er að leggja fram faglega, yfirvegaða og framkvæmanlega tillögu sem stuðlar að því markmiði,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.