
Fyrstu sporin tekin í Eyrbyggjusögurefil á Snæfellsnesi
Árið 2021 var komið á fót félagi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi um miðlun Eyrbyggju - Sögu Þórsnesinga, Eyrbyggja og Álftfirðinga sem er héraðssaga Snæfellsness og gerist sagan um allt nesið eins og örnefnin vitna ríkulega um. Félagið hefur sett á fót ýmis verkefni á undanförnum árum m.a. Eyrbyggjusögunámskeið með Torfa H. Tulinius prófessor í miðaldabókmenntum við HÍ, mjög vel sóttar sagnaskemmtanir þar sem rithöfundar hafa spjallað um söguna og örnefnagöngur á söguslóðum svo eitthvað sé nefnt. Stærsta einstaka verkefni félagsins hefur þó verið gerð Eyrbyggjusögurefils. Vinna við hann hófst árið 2022 og var Kristín Ragna Gunnarsdóttir mynd- og rithöfundur ráðin til þess að teikna upp söguna fyrir væntanlegan refilsaum. Félagið leitaði til kvenfélaga á Snæfellsnesi um samstarf um verkefnið og munu þau taka að sér umsjón með saumaskapnum, hver í sinni sveit. Refillinn er í sjö hlutum, jafnmörgum og kvenfélögin eru, og verður hann saumaður jöfnum höndum í heimahögum kvenfélaganna á Snæfellsnesi. Ullin sem notuð er til sauma er framlag frá sauðfjárbændum á Snæfellsnesi og var hún spunnin og lituð sérstaklega fyrir verkefnið.