
Skagamenn með sigur í lokaleik tímabilsins
Lið Aftureldingar mætti ÍA í lokaumferð Bestu deildar karla í gær. Fyrir leikinn voru Skagamenn búnir að hrista af sér falldrauginn, en gestirnir ekki. Tölfræðilega gátu þrjú lið fallið; KR, Vestri og Afturelding. Vegna vallaraðstæðna á Akranesvelli var leikurinn færður inn í Akraneshöllina. Skýr afleiðing þess að Íslandsmót er teygt fram á fyrsta vetrardag þegar allra veðra er jú von. Skemmst er frá því að segja að eina mark leiksins skoraði Gabríel Snær Gunnarsson eftir frábæra sendingu frá Hauki Andra Haraldssyni á 38. mínútu. Færin voru vissulega á bóga í síðari hálfleik og oft sem boltinn lenti upp í rjáfri hallarinnar. En Aftureldingu tókst ekki að ná í þetta mikilvæga jöfnunarmark til þess að opna leikinn upp á nýtt. Tap gestanna þýddi að liðið hafnaði í neðsta sæti með 27 stig og fellur niður í Lengjudeildina ásamt Vestra sem tapaði á sama tíma stórt gegn KR vestur á Ísafirði. Skagamenn eru hins vegar öruggir áfram í Bestu deildinni og hafna í öðru sæti neðri hluta deildarinnar með 34 stig, fimm stigum minna en KA. Það eru hins vegar Víkingar Reykjavík sem er Íslandsmeistari, með örugga forystu á næstu lið í efri hluta deildarinnar.