
Haraldur Benediktsson bæjarstjóri Akraness segir að mikil áhrif verði af bilun hjá Norðuráli og tímalínan óviss ennþá. Hann ítrekar þó að margt jákvætt sé í farvatninu sem vegi á móti tímabundnum erfiðleikum. Ljósm. mm
Fundað verður um stöðuna á Grundartanga næsta þriðjudag
Bilunin í rafbúnaði Norðuráls á Grundartanga síðastliðinn þriðjudagsmorgun, sem leiddi til þess að tveir þriðju kerjanna í verksmiðjunni eru úti, er að sjálfsögðu alvarleg staða fyrir sveitarfélögin á svæðinu. Óvissa ríkir um tímalínuna sem fram undan er sem felst í að fá nýja spenna til landsins og í framhaldi þess að gangsetja kerin í verksmiðjunni til að hún komist að nýju í full afköst. Þar er verið að tala um marga mánuði. Haraldur Benediktsson bæjarstjóri á Akranesi segir að vissulega sé komin upp alvarleg staða, en að allir muni leggjast á eitt að flýta því að hægt verði að gangsetja að nýju. Þá segir hann jákvæð teikn á lofti um aðra atvinnuuppbyggingu á svæðinu.