
Ný netverslun með hágæða garn opnuð á Akranesi
Verslunin Garnikó, ný netverslun með hágæða garn, var formlega opnuð á Akranesi í gærkvöldi. Rakel Rósa, stofnandi fyrirtækisins, hélt hlýlegt og líflegt opnunarpartý í Stúkuhúsinu á Akranesi sem hluta af opnunarkvöldi Vökudaga, menningar- og listahátíðar Skagamanna.
Viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum Rakelar en yfir 150 manns mættu við opnunina. „Það sem stóð mest upp úr var hversu fjölbreyttur hópur gesta kom, á öllum aldri og voru mjög spenntir fyrir nýjungum á þessum markaði,“ segir Rakel.
Garnikó.is býður upp á úrval af gæðagarni frá þekktum alþjóðlegum vörumerkjum á borð við Woolfolk, Biches & Bûches og Lana Grossa. Línan einkennist af náttúrulegum efnum, sjálfbærni, hlýju og fagurfræði. Markmið Rakelar er að bjóða upp á notendavæna og innblásna upplifun, þar sem prjón verður valkostur sem leið til að slaka á, tengjast og skapa.
„Ég vil að Garnikó sé rými þar sem fólk finnur innblástur, gæði og gleði,“ segir Rakel. „Það er líka mikilvægt fyrir mig að hvetja fleiri ungar konur til að byrja að prjóna, það er að verða æ vinsælla og nærandi áhugamál.“ Framundan hjá Garnikó er að halda áfram að kynna hágæða garn og skapa samfélag í kringum prjón og handverk. Rakel býður einnig upp á heimakynningar, þar sem gestir geta fengið Garnikó- upplifunina heim í stofu, séð og snert garnið og fengið ráðgjöf í afslöppuðu og persónulegu umhverfi. Garnikó.is er nú opin og tekur á móti pöntunum um allt land.

