
Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar endurspeglar sterka stöðu
Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2026 gerir ráð fyrir að rekstrarafkoma ársins verði jákvæð um rúmlega 212,6 milljónir króna, eða tæplega 10,2% af tekjum. Þetta kom fram á fundi sveitarstjórnar á miðvikudaginn þegar fram fór fyrri umræða um fjárhagsáætlunina. Gert er ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins verði 2.087,6 milljónir króna. Af því eru útsvarstekjur áætlaðar 681,8 milljónir króna og fasteignaskattar 897,9 milljónir króna. Rekstrargjöldin eru áætluð 1.962 milljónir króna. Stærsti einstaki kostnaðarliðurinn er að vanda laun og launatengd gjöld sem áætlað er að verði 820,3 milljónir króna. Þá er áætlað að fjármunatekjur verði 87 milljónir króna. Eins og áður sagði er því áætlað að rekstarniðurstaða verði jákvæð um 212,6 milljónir króna.