Fréttir
Hér má sjá hvernig vatnið er tvínýtt til raforkuöflunar. Neðst á myndinni er Kiðárvirkjun 2 og ofan við stöðvarhúsið uppistöðulón. Ofar í farveginum er nýtt stöðvarhús Kiðárvirkjunar 1 og uppistöðulón ofan við það. Virkjanalónin eru milli flugvallarins og skógarjaðarsins. Ljósmyndir: mm

Endurbyggðu stöðvarhús virkjunar í Húsafelli

Undanfarið ár hefur Bergþór Kristleifsson og hans fólk í Húsafelli í Borgarfirði unnið við endurgerð næstelstu virkjunarinnar á staðnum, Kiðárvirkjunar 1, en virkjanir á jörðinni eru alls fjórar. Virkjanasaga Húsafellsbænda teygir sig tæplega áttatíu ár aftur í tímann og alls hafa fjórir ættliðir bænda þar komið að framkvæmdum. Fyrstu virkjunina, Stuttárvirkjun, byggði Þorsteinn Þorsteinsson bóndi árið 1948 og þjónaði hún gamla íbúðarhúsinu og fjósinu. Gríðarlega mikið vatn vellur undan hrauninu í Húsafelli. Kristleifur Þorsteinsson ákvað að beisla þá orku enn frekar og byggði Kiðárvirkjun 1 árið 1978 og var sú virkjun á þeim tíma sú stærsta í eigu einkaaðila hér á landi, framleiddi um 120 kW. Rafmagnið var m.a. notað fyrir vaxandi sumarhúsabyggð í skóginum. Árið 2003 byggði Bergþór Kristleifsson síðan Kiðárvirkjun 2 sem er aðeins neðar í árfarveginum og beislar þannig fallorku úr sama vatninu. Fjórða og síðasta virkjunin í landi Húsafells byggði svo Bergþór og hans fólk og tóku í notkun 2017. Heitir hún Urðarfellsvirkjun og skilar um 1.100 kW inn á raforkukerfið. Samanlagt er því rafmagnsframleiðsla í Húsafelli yfir 1.800 kW sem lauslega reiknað samsvarar notkun yfir 6.000 heimila.

Endurbyggðu stöðvarhús virkjunar í Húsafelli - Skessuhorn