
Líkhúsið í Ólafsvík er við Hjarðartún, við hliðina á bókasafninu. Ljósm. úr safni/af
Vilja tryggja áframhaldandi rekstur líkhúss í Ólafsvík
Sóknarsamlag Ingjaldshóls- og Ólafsvíkurkirkju hefur óskað eftir því að gerður verði nýr samstarfssamningur við Snæfellsbæ um rekstur líkhúss að Hjarðartúni 6a í Ólafsvík. Á fundi Sóknarsamlagsins nýlega var farið yfir rekstur hússins og þau atriði sem þarfnast umbóta. Í bréfi sem Sóknarsamlagið sendi bæjarstjórn Snæfellsbæjar segir að hvorki samlagið né kirkjurnar sjálfar hafi fjárhagslegt bolmagn til að standa straum af rekstri og nauðsynlegu viðhaldi hússins án aðstoðar. Telur samlagið mikilvægt að starfsemi líkhússins haldi áfram í ljósi viðbragða og óska íbúa Snæfellsbæjar og leggur því til að gerður verði nýr fjögurra ára samstarfssamningur milli samlagsins og Snæfellsbæjar.