
Mjög alvarleg staða hjá Norðuráli í kjölfar bilunar í rafbúnaði
Bilun sú sem varð í rafbúnaði álvers Norðuráls á Grundartanga í gærmorgun gæti haft alvarleg áhrif á rekstur fyrirtækisins og í kjölfarið haft mikil atvinnu- og efnahagsleg áhrif. Framleiðsla álversins hefur nú þegar skerst um tvo þriðju. Í samtali við Skesshorn segir Sólveig Bergmann framkvæmdastjóri samskipta og samfélagsmála að þessa stundina sé farið yfir hvað varð þess valdandi að svo alvarleg bilun varð og leitað sé eftir nýjum búnaði í stað þess er skemmdist í gær. Því væri ótímabært að svara því hversu langan tíma taki að ná framleiðslunni í full afköst að nýju. Framleiðsla verður áfram í þeim þriðjungi sem ekki skemmdust í gær.
Samkvæmt upplýsingum Skessuhorns er búnaður sá er skemmdist í gær ekki lagervara hjá framleiðendum og því gæti tekið marga mánuði að útvega slíkan búnað. Sólveig vildi ekki tjá sig um það atriði en ítrekaði að málið væri í vinnslu hjá fyrirtækinu. Hún sagðist vonast til þess að innan hálfs mánaðar væri tímalína ljós um það verkefni að koma framleiðslunni í fullan gang að nýju.
Aðspurð um stöðu starfsmanna fyrirtækisins í ljósi samdráttar, í framleiðslu um óákveðinn tíma, sagði Sólveig ekki tímabært að velta þeim hlutum fyrir sér enda séu uppsagnir ávallt neyðarúrrræði.
Norðurál á Grundartanga hefur undanfarna áratugi verið einn af burðarásum atvinnulífs í sínu nærumhverfi og vegur auk þess þungt í efnahagslífi landsins. Aðspurð vildi Sólveig ekki tjá sig um hversu alvarlegar efnahagslegar afleiðingar samdráttur í framleiðslu Norðuráls ætti eftir að hafa. Upp væri vissulega komin alvarleg staða sem allt starfsfólk Norðuráls væri nú að bregðast við til þess að lágmarka tjónið.