Fréttir

Elkem mun draga úr framleiðslu en ekki segja upp fólki hér á landi

Elkem ASA hefur í hyggju að draga úr framleiðslu kísiljárns í verksmiðjum fyrirtækisins í Rana í Noregi og á Grundartanga í Hvalfirði vegna krefjandi markaðsaðstæðna. „Skerðingin getur leitt til tímabundinna uppsagna starfsmanna í Noregi, “ sagði í tilkynningu frá Elkem ASA í Noregi sem send var út í gær. Þess ber að geta að í Noregi er fyrirtækjum heimilt að segja starfsmönnum upp tímabundið en slík heimild er ekki til staðar á Íslandi. Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Grundartanga staðfestir í samtali við Skessuhorn að dregið verði úr framleiðslu en ekki verði uppsagnir hjá fyrirtækinu hér á landi. Þær eigi einungis við um verksmiðjuna í Noregi. Sagði hún að komið gæti til þess að slökkt yrði á einum ofni í tvo mánuði á Grundartanga til að draga úr framleiðslu en hún væri hóflega bjartsýn á að til þess kæmi ekki.

„Við höfum ákveðið að draga tímabundið úr framleiðslu vegna áframhaldandi veikrar markaðsaðstæðna í Evrópu, sem hefur leitt til hækkandi birgða og lægra verðs. Í kjölfar rannsóknar Evrópusambandsins á hugsanlegum verndarráðstöfunum vegna innflutnings á kísiljárni og járnblendi hefur óvissan aukist enn frekar. Við munum nota lokunina til að draga úr birgðum okkar og laga framboðið að eftirspurninni nú um stundir“ sagði Inge Grubben-Strømnes aðstoðarforstjóri Elkem ASA í tilkynningunni í gær.