
Eyjólfur dregur til baka kröfu um meirapróf á dráttarvélar
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur dregið til baka tillögu um breytingu á reglugerð um ökuskírteini, nr. 830/2011. Breytingin féll vægast sagt í grýttan jarðveg hjá bændum, enda fól hún í sér forsendubrest á fjölmörgum bújörðum. „Ég get upplýst að fallið verður frá áformum um þrepaskipt réttindi til aksturs dráttarvéla,“ skrifar Eyjólfur í tilkynningu. Þegar samráðsferli lauk um tillögu ráðherra höfðu 33 skilað inn umsögnum um málið, mörgum býsna harðorðum.
„Reglugerðarbreytingin var upphaflega sett fram að tillögu Samgöngustofu. Meginrök hennar sneru að umferðaröryggi. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar með umferðarlögum var bent á að dráttarvélar með stóra og þunga vagna væru í auknum mæli notaðar líkt og vörubílar í almennri umferð. Drögin voru birt til opins samráðs til að tryggja að markmið reglugerðarbreytinganna væri raunhæft og tæki mið af sjónarmiðum þeirra sem hana varðar. Samráði er nýlokið og að teknu tilliti til umsagna og þeirra áhrifa sem breytingin hefði í för með sér, einkum þess kostnaðar og fyrirhafnar sem hlytist af kröfu um aukin ökuréttindi fyrir bændur, er það niðurstaða mín að fella tillöguna brott,“ skrifar Eyjólfur Ármannsson.