
Rökkurdagar í Grundarfirði fóru af stað með krafti
Rökkurdagar í Grundarfirði standa yfir dagana 18. október til 5. nóvember og hófust þeir með alvöru krafti síðastliðið laugardagskvöld. Þá var boðið uppá þungarokksveislu í Samkomuhúsi Grundarfjarðar þegar hljómsveitirnar Duft, Patronian og Bergmenn spiluðu af hjartans lyst. Bergmenn riðu á vaðið en hún er skipuð ungum heimamönnum sem stóðu sig frábærlega. Það voru svo liðsmenn Patronian sem stigu næstur á stokk með Smára Tarf í broddi fylkingar. Þetta voru fyrstu opinberu tónleikar sveitarinnar og gaman að þeir hafi verið í Grundarfirði. Það var svo hljómsveitin Duft sem lokaði kvöldinu með kraftmikilli frammistöðu eins og þeir eru þekktir fyrir. Það verður því nóg um að vera í Grundarfirði næstu daga en meðal dagskrárliða verður Rökkurkviss, Barnaútgáfusmiðja, Hrekkjavökugleði, Stuttmyndasýning og margt fleira. Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.