Fréttir
Birna G Konráðsdóttir

Kona verður orðlaus

Birna Guðrún Konráðsdóttir rithöfundur á Hvanneyri hefur í gegnum útgáfufyrirtæki sitt, Huldar – textasmiðju, gefið út bókina „Kona verður orðlaus – Lygilega sönn reynslusaga.“ Í bókinni er fjallað um afdrifarík örlög, ævintýralega sjúkrahússvist og annað skondið og skrýtið sem höfundur hefur reynt um ævina. Eins og Birna lýsti sjálf í ítarlegu viðtali sem hún gaf í Skessuhorn sumarið 2024 hefur hún glímt við erfið veikindi. Í þeim beitti hún óspart stílvopninu bæði fyrir sig sjálfa og ættingjana sem ekki máttu heimsækja hana á sjúkrahúsið í miðjum Covid faraldri.

Á bókarkápu segir: „Bókin er raunsæ, en jafnframt ærslafull ádeila með skáldlegu ívafi. Hún fjallar um málóða konu sem varð „orðlaus“ bæði vegna krabbameins í barka og samskipta við íslenska heilbrigðiskerfið. Lesendur eru kynntir fyrir hliðarsjálfum höfundar. Um er að ræða þríeyki með dömu nokkra í broddi fylkingar. Sú er kotroskin kerla sem hjálpaði höfundi við að þrauka erfiða tíma í veikindunum, ásamt guðsbarni og drottningu. Í þessari frásögn kveður við sammannlegan tón, en öll búum við að sögum, reynslu og upplifun sem aðrir geta sótt styrk í og jafnvel fengið innsýn í áður ókannaða kima lífsins.“

Birna gluggar í tvö fyrstu eintökin af bókinni.

Skrifaði sig frá ýmsu

Í samtali við Skessuhorn segir Birna að kveikjan að nýju bókinni hafi eiginlega verið pistlar sem hún skrifaði á Facebook á meðan hún lá á sjúkrahúsinu og á milli þess að vera þar. „Fyrst hugsaði ég pistlana sem eins konar fréttaveitu fyrir ættingja og vini þar sem Covid var á fleygiferð og eiginmaðurinn var sá eini sem mátti koma í heimsókn, ef hann lofaði að fara ekki víða. Raunar var það svo að á tímabili þá var hann eini gesturinn á deildinni, líklega af því að ég vær æði veik þá. En ég skrifaði líka oft pistla eftir að hafa lent í einhverju, stundum alvarlegu, stundum einhverju skondnu, en notaði þennan miðil til að skrifa mig frá því og alltaf á gráglettinn hátt,“ segir Birna.

„Svo fannst mér eftir að heilsan fór að koma til baka að ég yrði bæði að skrifa mig frá þessari reynslu og eins að segja frá öllum þeim agnúum sem eru á íslensku heilbrigðiskerfi. Starfsfólkið er flest allt að vilja gert að þjóna sjúklingum en það er ekki alltaf nóg. Sem dæmi þá var ekki hægt að panta tíma á Þjóðarsjúkrahúsinu ef þú varst mállaus og er varla enn, nema með ýtni. Enginn er nefndur með nafni í bókinni. Læknar og annað starfsfólk fá ýmis nöfn eftir því sem andinn blés mér í brjóst. Einn var t.d. dr. Hroki, annar dr. Sperrileggur, svo var það sá Geislaprúði, og dr. frú Frunti og annað eftir því. Og af því að efnið er viðkvæmt, þá réði ég mér vanan ritstjóra og keypti umbrot á bókinni en ég hafði sjálf brotið um fyrri bókina „Hamingjan í Hillunum“ og hana lásu yfir tveir góðir vinir og komu þannig að hluta til í stað ritstjóra.“

Hliðarsjálfin

Í bókinni er Birna að segja frá upplifun sinni á kómískan hátt. „Einhvern veginn þróaðist það þannig að til urðu hliðarsjálf, þar sem kjaftfor dama fór fremst í flokki. Með hana í broddi fylkingar, þá gat ég talað meira tæpitungulaust um ýmislegt og gert stólpa grín að kerfinu, sjálfri mér og starfsfólkinu. Ég fjarlægði svolítið persónuna mig, með þessum hliðarsjálfum. Drottningin fæddist fyrst þegar ég fékk að prófa rúm með loftdýnum sem meðal starfsfólksins hafði verið kallað Rolsinn. Þetta var rándýrt rúm sem hafði bara safnað ryki af því að í því heyrðist hvinur sem fólki fannst óþægilegur. En mér fannst þetta bara eins og þytur í laufi og rúmið bjargaði algjörlega á mér skrokknum, því Sjögren gigtin er vandlát á rúmdýnur og ég hafði verið mjög slæm fyrstu dagana og vikurnar sem ég lá inni. Það var færeyskur sjúkraliði sem lét sér detta í hug að bjóða mér að prófa. Svo var gott að hafa drottninguna þegar ég var að gera grín að kröfum mínum um meiri þjónustu og drottningar vilja náttúrlega láta stjana við sig, nema hvað? Og að drottningin vildi ekki láta hvern sem væri þjóna sér, af því að sumt fólk kunni ekkert á þessar græjur sem ég var með og meiddi mig eiginlega. Þá var gott að geta, enn og aftur, fjarlægt mig úr frásögninni. Það var bara drottningin sem var með heimtufrekju. Með drottningunni gat ég jafnframt slegið því upp í grín að það væri bara einn gestur á deildinni, drottningarmaðurinn sjálfur, undirsátar drottningar þessarar, aðrir sjúklingar, fengu að sjálfsögðu ekki heimsóknir. En dramb er falli næst og drottningu þessari var reyndar steypt af stóli.“

Gaf almættinu heyrnartæki

Þá segir Birna að guðsbarnið hafi eiginlega komið óvart. „Ég hef alltaf verið trúuð, farið með bænirnar mínar á kvöldin og annað slíkt. Og oft hafði ég á orði í mesta baslinu hvað almættið væri eiginlega að meina með þessu öllu, hvað væri verið að reyna að kenna hinni fattlausu mér. Og skrifaði líka um það á FB. Það var síðan ritstjórinn sem kom með nafnið Guðsbarnið, og sannarlega höfum við átt ástar/haturssamband í gegnum árin, almættið og ég. Og á einum stað segist ég hafa ákveðið að gefa almættinu heyrnartækni, það væri greinilegt að það væri hætt að heyra. Og geri svo góðlátlegt grín að því. Þannig að þegar almættið ber á góma, þá er það guðsbarnið sem talar við það.“

Birna áréttar að sagan sé bæði sönn og login, eða allavega færð vel í stílinn. „Svo er ég með skáletraðan texta inn á milli sem er beint frá mér sjálfri, án hliðarsjálfanna. Þar reyni ég af fremsta megni að halda mig á hinum þrönga vegi sannleikans, sem eins og fyrr segir, er ekki endilega fetaður í þeim köflum sem hliðarsjálfin fá að leika lausum hala. En mér fannst ég verða að koma með mína persónulegu hlið líka til þess að bókin þjónaði tilgangi sínum.“

Bókin er jafn margar síður og póstnúmerið á Hvanneyri.

Forsíða bókarinnar.