
Vökudagar á Akranesi hafa aldrei verið með þéttari dagskrá
Vökudagar er menningarhátíð Akraneskaupstaðar og hefur frá upphafi verið haldin í lok október ár hvert, eða allar götur frá 2002. Að þessu sinni verður hátíðin dagana 23. október til 2. nóvember. Þær Vera Líndal Guðnadóttir menningarfulltrúi og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir upplýsingafulltrúi Akraneskaupstaðar komu við á ritstjórn Skessuhorns og sögðu blaðamanni stuttlega frá því sem framundan er. Aldrei hafa fleiri viðburðir verið á hátíðinni, eða 90 talsins, og er það um 50% fjölgun frá síðasta ári. Í boði verða myndlistar- og ljósmyndasýningar, tónleikar, Listaganga, smiðjur, markaðir og bókmenntakvöld, svo einungis fátt sé nefnt.
„Að þessu sinni sláum við saman Vetrardögum og Vökudögum í eina samfellda dagskrá. Auk þess koma Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi myndarlega að hátíðinni með því að styðja viðburði á barnamenningarhátíðinni „Best – mest – vest“ sem fer fram á sama tíma,“ segir Vera. „Þetta verður þétt og mikil dagskrá allan tímann, en helgarnar vissulega stærstar,“ bætir hún við. Prentuð dagskrá verður borin í hús nú um helgina. „Við hvetjum fólk til að kynna sér vel það sem framundan er, jafnvel fara út fyrir rammann og skoða eitthvað nýtt og framandi. Taka líka samtalið við börnin og hvetja þau til að sækja viðburði. Dagskráin býður upp á eitthvað fyrir alla og tilvalið að lífga upp á skammdegið,“ segir Sigrún Ósk.
Vökudagar verða settir með dagskrá í Tónlistarskólanum á Akranesi klukkan 17:00 fimmtudaginn 23. október. „Í beinu framhaldi af setningu hátíðarinnar hefst Listaganga klukkan 18 en þá verða langflestir viðburðahaldarar með opið. Á dagskrá verða allskyns samsýningar, opið lengur í verslunum og tilboð í gangi. Stærstu tveir viðburðir hátíðarinnar verða svo um helgarnar sem hátíðin stendur yfir. Tónlistarhátíðin Heima-Skagi verður í heimahúsum og Bíóhöllinni laugardaginn 25. október en síðari helgina, dagana 31. október til 1. nóvemebr verður Lilló Hardcorefest í Landsbankahúsinu. Milli helganna verða svo ýmsar stakar uppákomu og má þar nefna bókmenntakvöld á bókasafninu. Menningarstofnanir bæjarins og skólarnir hafa alltaf verið mjög virkir þátttakendur í Vökudögum.“
Meðal stórra samsýninga á Vökudögum nefna þær stöllur sýningu Listfélags Akraness í timburklædda skúrnum við hlið Hafbjargarhússins á Breið og fimmtán ára afmælissýningu Ljósmyndafélagsins Vitans í bílasöluhúsinu við Innnesveg 1. „Svo má nefna Menningarstrætó sem Listafélagið setti á laggirnar fyrir sýninguna hjá sér. Í strætónum mun sviðslistafólk sýna. Þá verða allskyns heilsu- og hugleiðslutengdir viðburðir í gangi, matarmarkaður og fleira. Hátíðinni lýkur svo sunnudaginn 2. nóvember með risastórum Tarzanleikum í íþróttahúsinu við Vesturgötu,“ segir Vera.
Sigrún Ósk segir að gríðarleg vinna liggi að baki skipulagningu svo viðamikillar dagskrár eins og framundan er og hrósar Veru Líndal fyrir utanumhald og umgjörð Vökudaga. Þær Sigrún og Vera benda íbúum og öðrum gestum á að alla viðburði á Vökudögum megi finna inni á akranes.is en á viðburðaskránni þar er dagskráin í heild.